Hvert er best að flytja?

Ég hef ákveðið að rífa mig upp með rótum og flytjast burt. Fyrst var ég að pæla í Englandi, en miðað við fregnir af íbúðaverði, leigu etc. þar í landi er ég farinn að efast um að það sé sniðug hugmynd. Spánn kallar dálítið til mín eftir ársdvöl þar '98-'99. Ekkert skemmtilegra en að slípa til spænskuna og læra meira af henni. Frakkland og Ítalía eru spennandi líka, en þá þarf ég að læra allt frá grunni. Bandaríkin eru stórt spurningamerki. Ég hef ekki verið mikið hrifinn af ríkisstjórninni sem þar hefur tröllriðið öllu síðustu 7 árin eða svo. En það er ekki allt svo slæmt að ekki megi finna eitthvað gott í því. Ég brosti út í eitt þegar ég horfði á Jón Ásgeir Jóhannesson útskýra íbúðarkaup í New York í Sjálfstæðu Fólki, það getur jú varla annað en batnað þegar Bush karlinn lætur af störfum haustið 2008, og var þar að vísa í neikvæða þróun á húsnæðismarkaði í Bandaríkjunum undanfarið. Touché!

Að mínu mati eru Bush og Cheney holdgervingar þess versta sem hægt er að finna í fólki. Menn sem komast til valda á vafasaman hátt, ljúga að kjósendum ástæðum til innrásar í lönd auðug af olíuauðlyndum til þess eins að sóa skattpeningum bandaríkjamanna í vopnakaup af eigin fyrirtækjum. Í kjölfarið er þjóðhagsstofnun Bandaríkjanna byrjuð að lýsa áhyggjum sínum af efnahag landsins og segir ríkið ekki geta staðið við lífeyrisskuldbindingar eftir árið 2030 ef ekki verði spornað við strax. Ekkert allt of langt síðan að Bill Clinton tilkynnti stoltur að hallinn á fjárlögum yrði núll. En hálfvitar þurfa víst ekki mikinn tíma til að knésetja þjóðir sínar til að hagnast persónulega. Versta sort. Ég verð að vera sammála Jóni hér, það eru tækifæri að myndast í America.

Er samt ekki viss um að þarna vilji ég búa. Byssulög landsins eru út í hött. NRA ber við afsökun um að hver maður hafi rétt til að verja sig, sem gefur svo ofbeldismönnum auðvelt aðgengi að skotvopnum til að fremja glæpi sína. Bandit

Eitt er alveg víst, hér á landi verður ekki gott að vera á næstu árum. Crying


Á að ganga af útflutningi dauðum?

Ég er ansi hræddur um að verði þessi spá að veruleika verði ekki mikið eftir af útflutningsfyrirtækjum til að leiðrétta viðskiptahalla síðustu ára. Ætlum við í alvöru að keyra okkur í alsherjarkreppu? Lækka stýrivextina núna og taka eftirköstum fjárfestingagleði síðustu ára. Við bara höfðum ekki efni á þessu!
mbl.is Greining Glitnis spáir gengislækkun í haust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru verðbætur tímaskekkja?

Nú hefur krónan styrkst um 11-13% frá áramótum gagnvart evru og dollar. Ekki hefur verðlagið samt hjaðnað hér heima. Verðbólgan heldur áfram að fæla Seðlabankann frá stýrivaxtalækkun. Það má hins vegar stóla á það að þegar krónan heldur tilbaka frá þessu styrkingaferli mun verðbólgan aukast á ný. Þetta virðist alltaf gerast. Krónan veikist og verðlag hækkar, krónan styrkist og ekkert breytist.

Krónan verður að veikjast. Hún er óeðlilega sterk sökum jöklabréfaútgáfu í skjóli okurvaxta. Þegar hún veikist mun verðbólgan taka kipp, verðbætur lána munu snarhækka og skilja mörg heimili eftir í skuldafangelsi. Þá munu erlend lán aukast sem nemur veikingu krónunnar. Það er þó eitt vopn sem heimilin í landinu hafa til þess að sporna við verðbólgu, og það er að draga úr neyslu. Ef neysla dregst saman í takt við hækkanir vöruverðs, þá verða innflytjendur að halda verðlagi innan skynsamlegra marka til að selja eitthvað yfirhöfuð.

Það sem ég skil kannski ekki helst hvað verðbætur varðar er að ef bankarnir geta lánað fólki erlend, óverðtryggð lán, á hagstæðum vöxtum. Tekið til að mynda 2-3% til sín, af hverju geta þeir ekki gefið fólki sömu kjör á íslenskri krónu? Af hverju verða óverðtryggðir vextir að vera mikið hærri? Svo skil ég ekki heldur af hverju bankarnir komast upp með að þrýsta upp húsnæðisverði á höfuðborgarsvæðinu með 100% lánum og öðrum aðgerðum, og græða svo á því í formi verðbóta á lán sín, hvort sem lántakendur eru á höfuðborgarsvæðinu eða annarsstaðar á landinu þar sem engin hækkun húsnæðisverðs hefur átt sér stað. Ég gat svosem skilið verðbætur þegar bankarnir voru í ríkiseigu, en nú eru þeir í einkaeigu og því er spurningin mín þessi: Af hverju á almenningur að bera áhættuna af verðlagsþróun í landinu og bera rekstraráhættu bankastofnanna í einkaeigu, þegar þeir sjálfir stuðla að hækkun verðlags?Bandit


Seðlabanki Íslands

Í allri umræðunni um gagnsleysi krónunnar, ágæti evrunnar, nauðsyn á inngöngu í evrópusambandið o.s.frv. virðist öllum fyrirmunað að muna að við Íslendingar börðumst hatrammri baráttu við Dani til að fá okkar sjálfstæði, sjálfstæði sem hefur gert okkur kleift að gera það sem við viljum þegar við viljum, og er óhætt að segja að það sjálfstæði hafi komið sér betur fyrir okkur en að vera undir hæl annarra þjóða sem stunduðu einokunarverslun og fleira hér áður fyrr.

Einnig virðast allir hafa gleymt Seðlabanka Íslands. Reyndar er óvíst hver stjórnar peningamálastefnu Seðlabankans. Mér sýnist að Ingólfur Bender sé aðalbankastjóri, því í hvert skipti sem tilkynna á stýrivexti bankans koma tilmæli frá Ingólfi á síðum fjölmiðla, og ef mikið liggur við leggja greiningadeildir hinna bankanna sín lóð á vogaskálarnar, bara svona til að engum detti í hug að óhlýðnast þeim.

Fyrir vikið lifum við Íslendingar við ótrúlega háa útlánsvexti. Einnig skapar þetta ótrúlega háa vaxtastig bönkunum svigrúm til að stýra gengi íslensku krónunnar með útgáfu svokallaðra jöklabréfa erlendis, skuldabréfa í íslenskum krónum með myndarlegum vöxtum sem eru mjög eftirsótt af fjárfestum erlendis. Þessi umframeftirspurn eftir íslenskri krónu veldur því að krónan styrkist umfram það sem eðlilegt er, án þess að sú styrking skili sér til neytenda í formi lægra vöruverðs og verði á þjónustu. Það sem er öllu alvarlegra er sú staðreynd að tekjur útflutningsfyrirtækja dregst saman, og það sem af er þessu ári hafa tekjur þessara fyrirtækja dregist saman um 11-13% frá áramótum. Á sama tíma hafa laun hækkað, mótframlög í lífeyrissjóði aukist og önnur útgjöld ýmist aukist eða staðið í stað. Það má öllum vera ljóst að þessi þróun er stórhættuleg. Uppsagnir Kambs á Flateyri eru að mínu mati aðeins byrjunin á ferli sem mun verða okkur íslendingum dýrkeypt.

Ég held að við ættum að hætta öllu bulli um upptöku Evru með tilheyrandi frelsisskerðingum. Ef við viljum sama vaxtastig og þau lönd sem búa við Evru hafa, þá ættum við bara að fylgja Seðlabanka Evrópusambandsins í stýrivöxtum. Ef þeir hafa 5,5% vexti, þá ættum við að hafa 5,5% vexti. Prófa þetta í nokkur ár og sjá hvort þessar óæskilegu sveiflur sem allir óttast muni ekki lægja. Hver veit, kannski getur almenningur jafnvel kroppað aðeins í höfuðstól lána sinna í stað þess að greiða tóma vexti og verðbætur til dauðadags. 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband