Ójafnræði ríkisins

Glitnir borgar 84% og Kaupþing 85%, en Landsbankinn bara 68%, og ég búinn að eiga þar pening í viku :o( Mætti ég þá biðja um að hin 32% verði til lækkunnar á námslánum mínum?!

Maður spyr sig...

 


mbl.is Greitt úr Peningamarkaðssjóði Kaupþings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Maður spyr sig

Í beinu sambandi við þetta, hlýnun jarðar, komu makríls í lögsögu Íslands etc... Mun þorskurinn ekki bara færa sig norðar þegar hitastig sjávar hækkar, rétt eins og makríllinn hefur þegar gert?

Er þá ekki um að gera að nýta hann á meðan hann er innan 200 mílna lögsögunnar, í stað þess að bíða og vernda hann svo hann geti flutt í stærri stíl?

Maður spyr sig...


mbl.is Hækkun sjávar vanmetin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Litla stúlkan með eldspýturnar

Maður á bara ekki til orð yfir bullinu sem fram kom í máli Davíðs í kvöld.

Eftir að hafa haldið stýrivöxtum í hæstu hæðum til að liðka fyrir innstreymi erlends skammtímafjármagns, liðkað í stað þess að herða bindiskyldu bankanna og hleypt af stað algjöru upphlaupi á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu og víða í 4 ár, þá hlustaði bara enginn á hann þegar hann blaðraði út í loftið um hættuna (sem ég man nú ekki eftir að hafa heyrt neitt ítarlega eða margítrekað um í fjölmiðlum), enda að eigin sögn fyrir luktum dyrum til ríkisstjórnar sem ekki tók mark á honum.

Davíð minn, stýrivextirnir hömluðu ekki verðbólgu eins og þú hélst fram. Þeir ollu því bara að fólk kaus erlend lán umfram krónulán og sitja nú í súpunni. Það tók víst enginn mark á þínum "aðvörunarorðum", og nú er lánshæfismat ríkis og banka í rúst eftir þínar einhliða ákvarðanir, sem komu eftir langvarandi svefn að feigðarósi.

Hvenær muntu átta þig á að þú stendur ekki undir því starfi sem þú gegnir? Hvenær munið þið sem lítið vitið og getið í starfi sjá sóma ykkar í að segja af ykkur? Fílabeinsturnar ykkar ráðamanna eru að hruni komnir, þið hafið svo sannarlega ekki unnið fyrir kaupinu ykkar.


mbl.is Ríkið borgi ekki skuldir óreiðumanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótrúlegt

Ég bara spyr, hvernig í ósköpunum mun aðild að ESB og upptaka Evru koma til með að "bjarga" nokkru? Það er sama fallið búið að vera á mörkuðum þar og hér, sama verðbólgan er að bíta þá og okkur, sama olíuokrið ríkir þar og hér. Það eina sem þarf að gera hér á landi er að taka til í Seðlabankanum. Hátt stýrivaxtastig hér síðustu árin var það sem varð okkur að falli á endanum. Landanum talin trú um að verið væri að berjast við verðbólgu, á meðan féð sem barst erlendis frá vegna hárra vaxta ýtti húsnæði upp um nærri 100% á 3 árum. Er það ekki verðbólga?

Ég segi bara: Seðlabankinn var að berjast við eld með bensíni, og nú á að fara að kasta sjálfstæði þjóðarinnar fyrir borð vegna heimsku og glapræði fárra.

Þeir sem vilja búa í ESB geta bara flutt þangað. Það er ekkert svo langt að fara.


mbl.is Meirihluti fylgjandi ESB-aðild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hitt og þetta

Síðustu tveir mánuðir eða svo hafa verið mjög sérkennilegir svo ekki sé meira sagt. Ég missti móðurbróðir minn og ömmu í febrúar og mars. Raggi frændi lést eftir erfið veikindi aðeins 72 ára að aldri. Amma var hins vegar orðin 99 ára.Það er dálítið skrítið að hugsa til þess að geta ekki hitt þau aftur. Þau bjuggu saman flest síðustu ár lífs síns, ýmist í Háaskála eða á elliheimilinu. Flestar minningar mínar af þeim tengjast sumrinu, enda umgekkst ég þau mest þá, þá sérstaklega ömmu í barnæsku. Minningin um ömmu verður alltaf lifandi í hjarta mínu svo lengi sem ég lifi, hún var sterk kona, og sterk manneskja yfirhöfuð. Hún kenndi mér svo margt um réttlæti og að vera góð manneskja.Ég reyni.Ég missti af jarðaförinni ömmu þar sem ég hafði ráðgert að heimsækja frænda minn í Bandaríkjunum, en hann er líka dóttursonur hennar. Mér fannst mikilvægara að vera hjá honum en að standa yfir kistu ömmu, ég veit að hún hefði lagt blessun sína yfir þá ákvörðun.

Ferðin út var athyglisverð fyrir margar sakir. Það var gott að hitta frænda, hann er alltaf jafn mikill snillingur í mínum augum. En hann átti líka marga athyglisverða vini. Ekki var verra að hitta margt skemmtilegt fólk á ferðalagi mínu til og frá Bristol VA. Á flugvöllunum, Hilton Logan og ekki síst á írska pöbbnum "Dirty Nelly's Olde Irish Pub".Ameríka er villta vestrið þar sem allt getur gerst, svo mikið veit ég.Mér fannst eins og ég hefði verið í burtu í mánuð hið minnsta, en ekki 8 daga eins og raunin var. Ég tel að það hljóti að vera skilgreiningin á góðu fríi.Tounge

Heimurinn er risastór. Vildi stundum óska að ég gæti bara ferðast alltaf og skoðað allt, bara sleppt að vinna. En það eru ábyggilega bara óskir barnslauss piparsveins.

Ég fíla vinnuna mína annars í botn. Vinn með eðalfólki og finnst þetta allt mjög skemmtilegt og spennandi. Gæti varla verið betra.Grin

  


Merkur dagur í mínu lífi

Í dag keypti ég mér þjónustu sem tók 1,5 klukkustund og kostaði 315.000 krónur.

Nei, þetta var ekki þjónusta í líkingu við þá sem herra Spitzer og herra Mosley nutu nýlega, ég keypti mér sjón.

Gleraugun eru á bak og burt, og nú stend ég furðulostinn fyrir framan spegilinn og velti fyrir mér hvað gerðist?
Aðgerðin var sársaukalaus og gekk hratt og vel fyrir sig. Mér fannst þetta meira gaman en annað. Er mest hræddur vi að gleyma mér og nudda augun í hugsunarleysi, en það hefur ekki enn gerst nú 8 tímum eftir aðgerðina.

Ég er ekki frá því að þetta sé besta fjárfesting sem ég hef lagt í hin síðari ár, með fullri virðingu fyrir íbúðinni minni í Ólafsfirði.
Talandi um íbúðina í Ólafsfirði. Ætlaði að endurfjármagna lán íbúðalánasjóðs með láni hjá banka hér á höfuðborgarsvæðinu og var að velta fyrir mér erlendu YENa lána án verðtryggingar (því allir sem þekkja mig vita hversu mikið ég elska verðtryggingu). Þetta var allt í athugun þangað til að í ljós kom að höllin stendur í Ólafsfirði, þá kom bara blátt nei. Þetta er í annað skipti sem útibú á höfuðborgarsvæðinu er til í að lána mér, þar til landsbyggðina ber á góma, þá er ég annars flokks pappír. Og ég sem hélt að það væri ólöglegt að mismuna fólki eftir búsetu, aldri o.s.frv. En það virðist ekki gildi um bankana.

Ég þakka bara guði fyrir að bankarnir fengu ekki sínu fram gagnvart íbúðalánasjóði og Byggðastofnun, annars væri þetta land ein rjúkandi rúst.

Djöfulli er ég myndarlegur núna! Og ég get meira að segja séð það sjálfur!!!


Mótmæli við Seðlabankann?

Ég er alveg hættur að skilja.
Krónan leitar jafnvægis eftir að hafa verið haldið sterkri með háum stýrivöxtum til lengri tíma.

Sterkt gengi veldur óheftu innflæði erlends lánsfjármagns, sem veldur verðbólgu (aðallega á fasteignamarkaði). En stýrivöxtunum er einmitt ætlað að fá erlent fjármagn til landsins, en jafnframt sporna við verðbólgunni sem það hefur í för með sér :o)

Þjóðin verður æ skuldsettari, og viðskiptajöfnuðurinn er ALLTAF neikvæður, sem þýðir að tekjur þjóðarbúsins mæta ekki útgjöldum.

Þetta virðist allmennt talið EÐLILEGT ÁSTAND.

Já, svo eðlilegt, að nú skulu vextir hækkaðir enn frekar, til að taka upp þráðinn sem ríkti áður en ljótu kanarnir settu allt á annan endan með því að vera að lána hverjum sem er fyrir húsnæði, og leiðinleg danirnir opnuðu munninn, og hryllilegir spákaupmenn gerðu árás (einmitt af því að vextirnir eru háir).

Allt sem ég hef lært í viðskiptafræði og hagfræði er hér fótum troðið af gömlum pólitíkusum í Seðlabankanum.

Hálf þjóðin heimtar ósjálfstæði og Evru, en enginn stendur fyrir utan Seðlabankann (eða keyrir) og lætur óánægju sína í ljós. Hvað er að þessari mynd?

BURT MEÐ VERÐTRYGGINGU, hún mun ganga af þessari þjóð dauðri.


mbl.is Landsbankinn spáir frekari stýrivaxtahækkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stýrivextirnir eru viðskiptahindrun

Ég endurtek sjálfan mig í sífellu. Það er ekki krónan sem er vesenið hér, heldur misræmi stýrivaxta hérlendis og í Evrópu og Bandaríkjunum. Ef við hættum að spenna bogann með þeim mikla vaxtamun sem við nú höfum skapað og stillum stýrivexti í 4% og látum þá fylgja Seðlabanka Evrópu þá verður ekkert vesen.

Að ætla að varpa sjálfstæði þjóðarinnar til að taka upp sömu vexti er bara rugl! Býst við að þeir sem náðu okkur undan dönum séu snúandi sér við í gröfinni núna.


mbl.is Krónan að verða viðskiptahindrun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ha? Er moska í Osló??!

Smá svindl hérna þar sem ekki var hægt að blogga um svínshausa í anddyri moskunnar í Osló.

Er moska í Osló?

Nú fer maður bara að skreppa til Mekka og reisa eitt stykki lúterska kirkju, þetta er náttúrulega bara prinsipp mál!

Britney að missa það... what else is new?


mbl.is Britney hótaði sjálfsvígi
Tenging við þessa frétt hefur verið rofin vegna kvartana.

Árið 2008... ó já!

Gleðilegt nýtt árið!

Hér kemur fréttapistillinn minn um áramótaheit og spá um hvað muni gerast á nýja árinu.

Áramótaheitin voru margvísleg í þetta skiptið, en eitt stendur upp úr, og virðast flestir sem mig þekkja ekki trúa því að ég geti efnt það. Gott og blessað, ég held að fortíðin spili dálítinn þátt í þeirri vantrú, en ég ætla samt að standa við það.... og hef gert það hingað til (heila 6 daga).

Áramótaheitin voru þessi (í réttri röð):

1. Hætta að lenda í áflogum.

2. Hætta að borða kokteilsósu.

3. Minnka frönskuát.

4. Hætta alfarið reykingafikti.

5. Hætta að drekka áfengi.

Það er kannski óþarft að taka það fram að það var 5. atriðið sem menn furðuðu sig á. En þegar ég fór að pæla í því, þá þýðir það atriði eitt og sér að hin fjögur efnast nánast af sjálfu sér. Engin drykkja þýðir engar bæjarferðir, engin áflog, engar sígó í glasi. Og á sunnudögum: Engin þynnkumatur, engin kokteilsósa, lítið um franskar.

Og þá beint í afleiðingar ákvörðunar minnar: Ég spái verulegum samdrætti í sölu Vínbúðar 2008 Grin

Þá er von mín að Seðlabankinn sjái ljósið og fari að lækka stýrivexti eins og lofað hefur verið lengi, að krónan veikist og að viðskiptahalli við útlönd minnki til muna. Að skuldir heimilanna minnki og að sú heimatilbúna þensla sem öllu hefur tröllriðið undanfarin ár líði undir lok. Að allt verði "eðlilegt" í samfélaginu og að fólk sættist á það ástand og fari almennt að haga sér almennilega. Shit, ég er farinn að hljóma eins og John Lennon í Imagine.

Aðrar afleiðingar drykkjuleysis eru farnar að poppa upp í huga mér: Ég hef miklu meiri tíma á höndum mér, mér líður betur og nú ætla ég að fara að gera allt sem ég hef alltaf verið að hugsa um að fara að gera, en aldrei drullast til að byrja á. Byrjaður á fullu í Laugum, ætla að kíkja í box seinni part janúar og svo er ég að fara að taka í Tennisspaða í dag og sjá hvort það sé eitthvað sem ég vil byrja að hugsa um af alvöru. Það er semsagt heilsan sem er númer 1, 2 og 10 í huga mér núna. Ég veit að þegar hún er góð er allt gott. Hef prófað það áður.

Anyways, ég vona að allir hafi það sem best á nýja árinu. Ég veit að ég mun hafa það skidegodt! Tounge


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband