Seðlabanki Íslands

Í allri umræðunni um gagnsleysi krónunnar, ágæti evrunnar, nauðsyn á inngöngu í evrópusambandið o.s.frv. virðist öllum fyrirmunað að muna að við Íslendingar börðumst hatrammri baráttu við Dani til að fá okkar sjálfstæði, sjálfstæði sem hefur gert okkur kleift að gera það sem við viljum þegar við viljum, og er óhætt að segja að það sjálfstæði hafi komið sér betur fyrir okkur en að vera undir hæl annarra þjóða sem stunduðu einokunarverslun og fleira hér áður fyrr.

Einnig virðast allir hafa gleymt Seðlabanka Íslands. Reyndar er óvíst hver stjórnar peningamálastefnu Seðlabankans. Mér sýnist að Ingólfur Bender sé aðalbankastjóri, því í hvert skipti sem tilkynna á stýrivexti bankans koma tilmæli frá Ingólfi á síðum fjölmiðla, og ef mikið liggur við leggja greiningadeildir hinna bankanna sín lóð á vogaskálarnar, bara svona til að engum detti í hug að óhlýðnast þeim.

Fyrir vikið lifum við Íslendingar við ótrúlega háa útlánsvexti. Einnig skapar þetta ótrúlega háa vaxtastig bönkunum svigrúm til að stýra gengi íslensku krónunnar með útgáfu svokallaðra jöklabréfa erlendis, skuldabréfa í íslenskum krónum með myndarlegum vöxtum sem eru mjög eftirsótt af fjárfestum erlendis. Þessi umframeftirspurn eftir íslenskri krónu veldur því að krónan styrkist umfram það sem eðlilegt er, án þess að sú styrking skili sér til neytenda í formi lægra vöruverðs og verði á þjónustu. Það sem er öllu alvarlegra er sú staðreynd að tekjur útflutningsfyrirtækja dregst saman, og það sem af er þessu ári hafa tekjur þessara fyrirtækja dregist saman um 11-13% frá áramótum. Á sama tíma hafa laun hækkað, mótframlög í lífeyrissjóði aukist og önnur útgjöld ýmist aukist eða staðið í stað. Það má öllum vera ljóst að þessi þróun er stórhættuleg. Uppsagnir Kambs á Flateyri eru að mínu mati aðeins byrjunin á ferli sem mun verða okkur íslendingum dýrkeypt.

Ég held að við ættum að hætta öllu bulli um upptöku Evru með tilheyrandi frelsisskerðingum. Ef við viljum sama vaxtastig og þau lönd sem búa við Evru hafa, þá ættum við bara að fylgja Seðlabanka Evrópusambandsins í stýrivöxtum. Ef þeir hafa 5,5% vexti, þá ættum við að hafa 5,5% vexti. Prófa þetta í nokkur ár og sjá hvort þessar óæskilegu sveiflur sem allir óttast muni ekki lægja. Hver veit, kannski getur almenningur jafnvel kroppað aðeins í höfuðstól lána sinna í stað þess að greiða tóma vexti og verðbætur til dauðadags. 


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband